Það kann að leiða til endaloka Evrópusambandsins ef ekki tekst að finna lausn á vandanum á evrusvæðinu. Þetta sagði Pedro Passos Coelho, forsætisráðherra Portúgals, í viðtali sem dagblaðið Publico birti í dag. Er sagt frá þessu á vef RÚV.

Hann sagði að kreppan væri orðin kerfisbundinn og því þyrfti mun róttækari aðgerðir til að bregðast við vandanum. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir hefði það ekki tekist. Portúgal var þriðja ríkið á evrusvæðinu sem leita varð aðstoðar vegna skuldavanda og bágborins efnahags.

Forsætisráðherrann sagði að það væri forgangsmál stjórnar sinnar að ná þeim markmiðum sem kveðið væri á um í björgunarskilmálum. Yrði nauðsynlegt að skera meira niður yrði stjórnin að laga sig að því.