Lloyd Blankfein, bankastjóri bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs, og forstjórar sex annarra risafyrirtækja þar í landi funduðu með bandarískum þingmönnum í þinghúsinu í gær og þrýstu þeir á að stjórnmálamenn komi sér saman um aðgerðir til að forða landinu frá því að fara fram af fjárlagaþverhnípinu svokallaða eftir áramótin. Fjárlagaþverhnípið (e. fiscal cliff) er samblanda af boðuðum skattahækkunum, afnámi skattaafslátta og niðurskurði á ríkisútgjöldum sem taka gildi vestanhafs eftir áramótin. Varað hefur við því að áhrifin á efnahagslíf Bandaríkjanna geti verið neikvæð þar sem ríkisskuldir aukist og draga muni úr einkaneyslu. Hugsanlegt er að landið geti lent inn í niðursveifluskeiði á nýjan leik.

Bandaríska fréttastofan CNN segir Blankfein hafa þrýst á stjórnmálamenn að þeir komi sér saman um aðgerðir fyrir árslok. Bandaríska ríkið hafi einfaldlega ekki efni á að fara fram af þverhnípinu. Tekið er fram að Blankfein hafi fram til þessa ekki fengið góðar viðtökur í Washington enda hafi hann nær ævinlega mælt fyrir hagsmunum Goldman Sachs. Lögð er áhersla á það í umfjöllun CNN, að tónn bankastjórans hafi breyst.

Blankfein sagði m.a. bæði Demókrata og Repúblikana verða að bakka með einhverjar áherslur sínar svo hægt verði að komast að samkomulagi fyrir áramótin svo efnahagslífið fari ekki á hliðina.