*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 5. nóvember 2013 18:54

Varar við flótta ungs fólks frá Reykjavík

Björk Vilhelmsdóttir segir stöðuna svo slæma á leigumarkaði að ungt fólk flytji úr borginni en skilji gamla fólkið eftir.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

„Það er hægt að bjarga markaðnum á alls konar vegu, s.s. með því að veita afslætti til ákveðinna hópa. En það getur leitt til verðhruns á fasteignamarkaði,“ segir Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. Í umræðum um tillögur að eflingu leigumarkaðar í Reykjavík sagði Áslaug mikilvægt að skoða eftirspurnina frekar. Með afsláttum til bygginga leiguíbúða sé verið að úthluta verðmætum. Bæði þurfi að skoða hverjum eigi að fá verðmætin og hverjir fái að byggja leiguíbúðir með afslætti borgarinnar. 

Æskuslóðirnar Reykjavík

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði mikla eftirspurn eftir leiguhúsnæði, s.s. í félagslega kerfinu. Fram kom í máli hennar að þeim hafi fjölgað um tæp 80% frá 1. nóvember árið 2009 sem séu í brýnni þörf eftir húsnæði. Þá dró hún upp mjög dökka mynd af hugsanlegri þróun mála og sagði svo geta farið að gamla fólkið muni á endanum verða í meirihluta borgarbúa en unga fólkið fari annað því það fái ekki húsnæði á viðunandi verði á leigumarkaði. Hún hvatti til þess að ráðast í átak til að bjóða ungt fólk til borgarinnar. 

„Reykjavík getur orðið eins og þorp úti á landi sem er að þurrkast út,“ sagði hún og að verði ekki gert geti svo farið í framtíðinni að unga fólkið sem hafi flust annað kíki í heimsókn til Reykjavíkur til að heimsækja aldraða foreldra sína og skoða æskuslóðir.

Áslaug sagði marga þætti eftir að skoða betur. Ekki sé ljóst hvernig leigufélög eigi að fara að því að bjóða íbúum langtímaleigu á viðráðanlegri verði. En gæta verði að því að það hafi ekki neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn.

„Við þurfum að stíga varlega til jarðar. Við getum ekki orðið valdur að því að hér fari allt í einhverja vilteyslu,“ sagði hún.