„Það er augljóst að sú krafa er uppi af hálfu Alþýðusambands að hér þurfi að hækka laun til að mæta verðlagsþróun. Það ber að taka alvarlega,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann varaði við þróuninni, víxlverkun verðlags og launa.

„Það er alvarlegt mál fyrir okkur ef verðbólgan fer aftur af stað. Það þýðir að Seðlabanki Íslands mun hækka stýrivexti sína, reyndar eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur mælt með.“

Illugi ræddi jafnframt um síðustu kjarasamninga Alþýðusambandsins (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA). Hann sagði samningana hafa falið í sér ríflegar launahækkanir, sem hafi byggt á því að hagvöxtur hér yrði töluvert meiri en raunin varð. Þá rifjaði Illugi upp að AGS hafi varað við launahækkunum á verðlag og verðbólgu.

Illugi sagði yfirlýsingar forsvarsmanna ASÍ verða að taka alvarlega enda muni greiðslubyrgði lána þeirra sem hafi tekið lán með breytilegum vöxtum hækka.