Gunther Öttinger, fulltrúi Þýskalands í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, varar við neyðarástandi í Grikklandi takist þarlendum stjórnvöldum ekki að semja við lánadrottna sína fyrir 1. júlí næstkomandi.

Evrópskir fjármálamarkaðir bíða með öndina í hálsinum eftir að samningaviðræðum grískra stjórnvalda og lánadrottna þeirra var slitið eftir einungis 45 mínútna fund í gær án nokkurs samkomulags.

Grikkland þarf að standa skil á 1,6 milljarða evra láni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir mánaðamót og vilja lánveitendur að þarlend stjórnvöld skeri niður greiðslur til ellilífeyrisþega og lækki annan kostnað vilji þeir fá neyðarlán til að standa skil á skuldbindingum sínum. Stjórnarflokkurinn Syriza mótmælir hins vegar öllum frekari niðurskurði, en Öttinger segir mikilvægt að samningar náist hið snarasta.

„Við verðum að koma upp með neyðaráætlun því það við gætum átt von á neyðarástandi í Grikklandi," var haft eftir Öttinger á vef Independent .

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að Grikkir séu einungis tilbúnir að skera niður ellilífeyri sem nemur 0,04 prósentum af landsframleiðslu á meðan þeir fyrrnefndu vilja sjá 1 prósent niðurskurð hið minnsta.