Vísbendingar eru um að draga sé úr einkaneyslu á sama tíma og innflutningur á fjárfestingarvöru er lítill. Þetta segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann varaði við því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að byggja efnahagsstjórn á vexti í einkaneyslu þegar fjárfestingar væru í lágmarki. Það geti haft neikvæð áhrif á hagtölur.

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra tók undir með Illuga að vísbendingar séu um að einkaneysla sé að dragast saman. Á móti benti hún á að ekki hafi verið birtar nýlegar upplýsingar um kortaveltu erlendra ferðamanna. Hún taldi þær geta þrýst tölum um einkaneyslu ofar en þær eru í raun.

Hún vísaði því hins vegar á bug að efnahagsstefnan byggðist á vexti í einkaneyslu og fjárfestingum:

„Hjartað í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið að stöðva skuldasöfnun hins opinbera svo hér sé hægt að losa um fjármagnshöft. Við þurftum að losa þau sem allra fyrst,“ sagði hún.