Tony Hayward, fyrrum forstjóri olíuframleiðandans BP, varar við áhrifum sem viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins við Rússland gætu haft á olíuverð á næstu árum. Þá segir hann að með því að minnka fjármagnsgetu rússneskra orkufyrirtækja sé líklegt að það muni draga verulega úr framboði á olíu til langs tíma.

„Heimurinn hefur verið leiddur í falska öryggiskennd vegna þess sem hefur verið í gangi í Bandaríkjunum,“ sagði Hayward í samtali við Financial Times en þar vísar hann til stóraukinnar framleiðslugetu Bandaríkjanna á olíu. Síðan árið 2008 hefur hráolíuframleiðsla vestanhafs aukist um 60%. „Þegar framleiðsla í Bandaríkjunum hefur náð hámarki, hvaðan mun nýja framboðið koma?“ spurði Hayward.