Danska götublaðið Ekstra Bladet birti í dag þriðja hluta sinn af umfjöllun blaðsins um viðskipti Íslendinga í Danmörku og umsvif íslenskra kaupsýslumanna.

Aðalumfjöllunarefni Ekstra Bladet í dag er lögfræðingurinn Claus Abildstrom, sem er bendlaður er við að tengjast peningaþvott svartra rússneskra peninga. Ekstra Bladet vitnar meðal annars í gerðardóm sem féll gegn lögfræðingnum í hæstarétti á Bermúdaeyjum í ágúst á þessu ári. Í greininni leitast Ekstra Bladet við að tengja íslensk fyrirtæki og Rússland við lögfræðinginn varasama og hefur upp úr krafsinu hinar ýmsu tengingar sem eru misjafnlega langsóttar.

Claus Abildstrom tengist mörgum fyrirtækjum í Danmörku sem öll eiga það sameiginlegt að vera í eða hafa verið í eigu Íslendinga. Meðal annars Magasin du Nord, Illum, Atlas Ejendomme. Stodir A/S, Hólakot og Threk.
"Þetta eru sömu fyrirtæki og tengjast Nyhedsavisen," segir í grein Ekstra Bladet.

Í blaðinu í dag er einnig sagt frá því að Claus Abildstrom sé fyrrum starfsmaður og nú meðeigandi í lögfræðistofunni J.P. Galmond sem tengist Björgólfsfeðgum og fjárfestingum þeirra í Rússlandi á níunda áratug síðustu aldar. Þá hefur títtnefndur Abildstrom einnig hjálpað félaga sínum Galmond við yfirtökutilraunir á rússneskum símafyrirtækjum en Galmond á fjórðungshlut í farsímafélaginu Megafon sem er meðal stærstu símafyrirtækja í Rússlandi og hyggur á aukin umsvif á rússneska símamarkaðinum.

Þá segir Ekstra Bladet að Abildstrøm hafi notað skúffufyrirtækið Honestas Investments Limited til að fela eignarhald á rússneskum hlutabréfum fyrir andviðri allt að 250 milljóna danskra króna.

Umfjöllun Ekstra Bladet í dag kemur í kjölfar þess að á sunnudaginn fjallaði um blaðið um meint skattasvik Kaupþings banka en blaðið segir að Kaupþing banki hafi sett upp flókið fjármálanet sem þjóni þeim tilgangi að koma peningum undan dönskum skattayfirvöldum. í grein blaðsins segir að bankinn hafi komið sér upp afar leynilegu kerfi sem er notað til að færa stórar fjárhæðir á milli alþjóðlegra fjármálamiðstöðva víðsvegar um heiminn beint undir nefinu á dönskum skattayfirvöldum.

Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka hefur vísað þessum fullyrðingum á bug í fjölmiðlum og sagt þér hlægilegar.

Ljóst er að búast má við meiru frá Ekstra Bladet næstu daga í sama dúr en tóninn var sleginn síðasta föstudag þegar blaðið boðaði umfjöllunina með dramatískum hætti.

?Hefur þú verslað við Sterling, Merlin, eða Magasin? Viltu vita hvað verður af peningunum þínum. Hefur þú nýlega flétt Nyhedsavisen og velt fyrir þér hvaðan peningarnir koma? Þá skaltu kaupa Ekstra Bladet næstu daga. Við höfum rannsakað til hlítar íslenska efnahagsundrið og kortlagt hvernig peningarnir komu upprunalega frá Rússlandi til Lúxemborgar til Karabíska hafsins til Íslands þaðan sem þeir svo ferðuðust loks til Danmerkur.Þetta er engin skemmtilesning við sögu koma glæpamenn, háttsettir stjórnmálamenn og margir milljarðar. Tveir verðlaunablaðamenn okkar hafa ásamt rússneskum heimildarmanni hafa lagt nótt við dag til að flétta ofan af íslensku svikamyllunni. Niðurstöðurnar minna á reyfarakennda spennusögu en svona er nakinn raunveruleikinn. Lestu meira í Ekstra Bladet á sunnudaginn,"