Varasjóðir rússneska ríkisins gætu tæmst innan þriggja ára verði ekki gripið til aðgerða í ríkisfjármálum, að því er Bloomberg fréttastofan hefur eftir Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands.

Olíuverð er nú í kringum 60 dali á fatið og er það m.a. ástæða fyrir því að gert er ráð fyrir allt að 4% efnahagslegum samdrætti í Rússlandi á næsta ári.

Ekki hefur verið samdráttur í rússneska hagkerfinu frá árinu 2009 og er allt útlit fyrir að næsta samdráttartímabil geti varað í tvö ár. Langstærstur hluti utanríkisviðskipta Rússa er olíuútflutningur og hefur olíuverð ekki verið lægra í fimm ár. Ofan á þau vandræði bætast svo áhrif viðskiptaþvingana Vesturveldanna vegna aðgerða Rússa í Úkraínu.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's sagði í vikunni að lánshæfiseinkunn rússneska ríkisins gæti lækkað í ruslflokk ef ekki verður gripið til trúverðugra aðgerða.

„Ef engar ákvarðanir verða teknar munum við brenna varasjóðina upp á árunum 2016-2017,“ sagði Siluanov. „Þriðjungur útgjalda okkar fer í varnarmál og það er of stór hluti. Við þurfum að stokka upp og leggja meira fé í innviði, menntamál og fleira.“