„Þetta leggst rosalega vel í mig. Ég finn að ég nýt fulls trausts og strákunum finnst þetta bara spennandi held ég. Það vekur reyndar dálitla athygli á verkstöðunum þegar ég mæti á vinnusvæðin í háum hælum,“ segir Brynhildur S. Björnsdóttir, nýr framkvæmdastjóri GG verk ehf. Spurð að því hvað hafi heillað við GG verk segir Brynhildur að tækifærin séu mörg hjá fyrirtækinu.

„Það sem kveikti áhuga minn var hversu mikið svigrúm er til staðar til að móta og mynda stefnu, gildin, hugmyndafræðina og allt það sem felst í stefnumiðaðri stjórnun.“ Þá segir hún þá staðreynd að byggingafyrirtækjum sé oft stjórnað af karlmönnum hafa hvatt sig enn frekar. „Ég er einlægur fylgjandi þess að fyrirtæki leitist við að hafa kynjahlutföllin sem jöfnust, enda sýna allar rannsóknir að saman erum við sterkust,“ segir Brynhildur.

Ætlaði aldrei í pólitík

Brynhildur hóf BA nám 28 ára, þá orðin þriggja barna móðir. Hún fann strax að það átti vel við sig og úr varð að hún stundaði háskólanám næstu árin með góðum árangri auk ýmissa rannsókna. Þá stofnaði hún bókhalds- og rekstrarþjónustuna Hagsýn árið 2010, þar sem hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra síðan.

Brynhildur er varaþingmaðurBjartrar framtíðar og sat t.a.m. samfellt á þingi í tvo mánuði í vor. Þá er hún jafnframt gjaldkeri flokksins. Brynhildur segist þó aldrei hafa ætlað í pólitík sjálf. „Mér bauðst að taka þátt í stofnun nýs stjórnmálaflokks sem byggði á sterkum gildum um skynsemi, samræðu og samvinnu, svipað og maður þekkir úr atvinnulífinu. Ég sló til og hef ekki séð eftir því eina mínútu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .