Þessa dagana er ég fyrst og fremst að reyna að ná utan um starfið en ég mun leggja mesta áherslu á samtalið við viðskiptavini og rétt skilaboð á réttum stöðum á réttum miðlum. Mín verkefni snúa fyrst og fremst að fræðslu og kennslu um okkar auknu þjónustu og stafrænu áherslur,“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, sem tekið hefur við sem markaðsstjóri Íslandspósts.

„Ég hef verið í hátækni og ferðaþjónustu og í smásölu og núna þegar haft var samband við mig gat ég ekki annað en þegið þetta stóra tækifæri, enda hér áskorun af því tagi sem markaðsfólk dreymir um að takast á við og taka til hendinni. Hér eru tækifærin svo mörg, mikill vilji og kraftur en margt sem þarf að breyta og taka til endurskoðunar. Það er gaman að vinna með svona  sterku stjórnunarteymi og þeim frábæra mannauði sem hér er.“

Ósk Heiða byrjaði ferilinn ekki í markaðsmálunum. „Ég tók að mér viðskiptastjórastarf í hugbúnaðarfyrirtæki sem hét HugurAx, sem þróaðist yfir í að ég tók að mér markaðsmálin, en það félag sameinaðist síðan inn í Advania. Mig hafði alltaf langað í hótelbransann og þegar færi gafst þá tókst mér að búa til tækifæri  sem kom mér á framfæri við  Íslandshótel. Síðan hafði Krónan samband og svo fór ég til Trackwell,“ segir Ósk Heiða sem segir fyrirtækin ótrúlega ólík.

„Ferðaþjónustan var auðvitað gríðarlega kvik, enda á þessum tíma mikill uppgangur og hraði samhliða brjáluðum vexti, en helsti munurinn til dæmis á því að starfa fyrir smásölufyrirtæki og hátækni var hve skjót viðbrögð við fengum við öllu hjá Krónunni. Ég trúi því að reynslan tekin saman nýtist mér vel hérna hjá póstinum enda gríðarleg tækifæri í aukinni netverslun.“

Eiginmaður Óskar Heiðu er Magnús Freyr Smárason, rafmagnsverkfræðingur hjá Eflu, en saman eiga þau tvö börn sem eru sjö og átta ára gömul. „Þannig að það er mikið fjör á heimilinu svo utan vinnu er maður fyrst og fremst að hafa ofan af fyrir börnum sínum og hlaupa á eftir þeim. Auðvitað líka að reyna að búa til gæðastundir fyrir alla fjölskylduna inn á milli þess að skutla þeim fram og til baka á æfingar. Þá eru það helst þetta klassíska eins og sundferðir, gönguferðir og bíóferðir,“ segir Ósk Heiða.

„Fyrir tveimur árum fann ég þörf hjá mér til að vaxa og ákvað að verða virkari út á við, fór að taka þátt í félagsstörfum, skrifa greinar og halda fyrirlestra, sem varð til þess að nú er ég formaður FKA Framtíðar, það er yngri deildarinnar í Félagi kvenna í atvinnulífinu ásamt því að vera í stjórn VertoNet, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni. Að kynnast öllum þessum flottu konum hefur gefið mér ótrúlega mikið og styrkt mig bæði faglega og persónulega.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .