Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, starfaði í nær 20 ár hjá Icelandair, bæði hér heima og erlendis, og hafði þar umtalsverð áhrif. Hann tók meðal annars þátt í stofnun Samtaka ferðaþjónustunnar og var fyrsti formaður samtakanna.

Árið 2005 var Steinn Logi síðan ráðinn forstjóri Húsasmiðjunnar. Eftir að hafa stýrt félaginu í tæp fimm ár, og þar á meðal í gegnum mikla erfiðleika eftir hrun, lét hann af störfum með skömmum fyrirvara í ársbyrjun 2010.

„Það kom nú nokkuð skyndilega til því ég hafði verið í mjög góðu sambandi við Landsbankann sem var þá eini skuldareigandinn og í raun orðinn meirihlutaeigandi hlutabréfanna líka,“ segir Steinn Logi, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um starfslok sín hjá Húsasmiðjunni.

„Ég hafði verið að vinna að því m.a. að fá nýja aðila að félaginu og var þá kominn með danska fjárfesta sem voru mjög áhugasamir um að koma að félaginu þá en keyptu svo félagið 2 árum síðar. En um þetta leyti voru þessi félög, sem Landsbankinn var með öll, að komast í eigu Vestia og þá varð sú breyting að menn vildu fá nýja forstjóra að þeim öllum. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið mér til gæfu eins og svo oft gerist í lífinu.“

Nánar er rætt við Stein Loga í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.