Fjöldi starfsfólks Landspítala í sóttkví undanfarið hefur haft mikil áhrif á álagsþol spítalans. Þegar inflúensa geysar hefur starfsfólk ekki verið sett í sóttkví þrátt fyrir útsetningu og því hefur sá þáttur ekki verið takmarkandi í viðureign við álagsaukningu í flensufaraldri, þótt vissulega hafi þá þurft að passa sérstaklega vel upp á að inflúensusmit berist ekki í viðkvæma hópa.

Það er vandasamt að bera saman Covid-19 og inflúensu, ekki síst vegna þess að covid faraldurinn hefur ekki verið mældur með sama hætti og flensan, en ómíkrón-afbrigðið virðist þó margfalt mildara en fyrri afbrigði veirunnar.

Ekki er ólíklegt að verklag fari að færast nær því sem gerist í inflúensu í ljósi þessa, til þess að draga úr álagi vegna mönnunarvanda, en samkvæmt heimildum blaðsins er ólíklegt að það gerist á næstu mánuðum og þykir það sennilega ekki raunhæf sviðsmynd fyrr en á næsta ári. Tilslakanir í þá átt gætu þó liðkað verulega um á spítalanum.

Skiptar skoðanir um næstu skref

Í ljósi þess að mögulegt er að skala gjörgæslu verulega upp með grettistaki og vegna lágrar innlagnatíðni af völdum ómíkrón, vaknar sú spurning hvort betra væri fyrir spítalann og starfsfólk hans, sem hefur verið undir gríðarlegu álagi, að takast á við snarpa smitbylgju sem stendur skemur en við tempraða útbreiðslu smita, nú þegar hjarðónæmi virðist í augsýn. Við temprun útbreiðslu er álag á starfsfólk engu að síður mikið og reynir meira á lengri tíma úthald.

Ekki er ein ríkisskoðun innan spítalans um næstu skref en í ljósi afar jákvæðrar þróunar undanfarið gætir aukinnar bjartsýni um að spítalinn geti ráðið við verkefnin við mun vægari temprun eða jafnvel án hennar.

Varfærnin er þó mikil innanhúss, enda er þetta vísindasamfélag, og þrátt fyrir jákvæð teikn víða um heim þá hafa stjórnendur viljað sannreyna þróun ytra hér á landi með öflun innlendra gagna. Innlend gögn hafa nú gefið tilefni til bjartsýni innan spítalans en innlagnartíðni hefur reynst töluvert lægri hér en dönsk gögn höfðu gefið til kynna, auk þess sem innlagnartíðni 75 ára og eldri hefur fallið úr um 17% í um 4%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .