Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað fyrir helgi að halda stýrivöxtum óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%.

Markaðsaðilar höfðu litið svo á að fyrri vaxtaákvörðun Seðlabankans, þegar stýrivextir voru lækkaðir um 50 punkta úr 5,75% í 5,25% þann 24. ágúst, markaði ákveðna losun á kjölfestu aðhaldsstefnu bankans, og að nú væri stefnt að áframhaldandi vaxtalækkunum til lengri tíma vegna verðbólguhjöðnunar og lækkunar í verðbólguvæntingum.

Í ljósi hagtalna um vaxandi spennu í hagkerfinu og verðlagshækkun umfram væntingar voru stýrivextir þó ekki lækkaðir í bili. Ekki er útlit fyrir að frekari lækkanir séu í kortunum, þó svo að það sé ekki óhugsandi.

Stefnubreyting Seðlabankans

Tveimur dögum eftir að ákvörð­un um lækkun stýrivaxta var tekin birti Hagstofan talnaefni um vísitölu neysluverðs. Verðbólga stóð þá í 0,9% miðað við 1,1% verðbólgu í júlí. Stýrivextir Seðlabankans höfðu þá staðið í stað frá því í nóvember 2015.

Vaxta­ákvörðunin kom flestum markaðsaðilum á óvart, en samdægurs lækkaði krafan á óverðtryggð­ um ríkisbréfum, verðbólguálag á skuldabréfamarkaði (munur á RIKB20 og RIKS21) hækkaði og úrvalsvísitalan sömuleiðis. Opinberar stýrivaxtaspár höfðu spáð óbreyttum vöxtum í ljósi vaxandi þenslu í hagkerfinu, en Seðlabankinn hafði t.a.m. hækkað stýrivexti um 25 punkta í nóvember 2015 vegna vaxandi heildareftirspurnar í hagkerfinu.

Engar breytingar höfðu átt sér stað í efnahagshorfum í allt að níu mánuði og aðhaldssöm peningastefna Seðlabankans, í raun allt frá lokum 2011, hafði átt mikinn þátt í að keyra niður verðbólgu og verð­ bólguvæntingar frá síðari hluta ársins 2012. Þar að auki hafði harður tónn í yfirlýsingum peningastefnunefndarinnar frá desember 2015 og til júní 2016 gefið til kynna að Seðlabankinn myndi auka aðhald peningastefnunnar enn frekar á komandi misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólgu­þrýstings.

Óvænt vaxtalækkun Seðlabankans var því eins konar viðurkenning á því að lágverðbólgan gæti haldið áfram í núverandi þensluskeiði, þar sem erlend verð­hjöðnun og gengishækkun myndi berja niður innlendan verðbólgu­þrýsting áfram.

Hættan á of lágri verðbólgu, í kringum 1% neðri fráviksmörk frá 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, gaf peningastefnunefndinni þar að auki svigrúm til að slaka á aðhaldinu með enn frekari vaxtalækkunum. Af þeirri ástæðu mynduðu markaðsaðilar sér væntingar um áframhaldandi vaxtalækkanir um allt að 25-50 punkta fyrir áramót, á þeirri forsendu að verðbólga héldi áfram að hjaðna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .