Veiðimaðurinn Snorri Rafnsson, betur þekktur sem Vargurinn, var tekjuhæsti áhrifavaldur á samfélagsmiðlum hér á landi í fyrra og námu tekjur hans að jafnaði tæplega 1,5 milljónum króna á mánuði, samkvæmt álagningarskrám ríkisskattstjóra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Í blaðinu má finna upplýsingar um tekjur tæplega ríflega 3.700 Íslendinga. Að þessu sinnir eru tveir nýir flokkar í blaðinu. Annars vegar yfir tekjur áhrifavalda á samfélagsmiðlum og hins vegar fasteignasala.

Næst tekjuhæsti áhrifavaldurinn á eftir Snorra var Birgitta Líf Björnsdóttir en mánaðartekjur hennar námu að jafnaði 888 þúsund krónum á mánuði.

Fimm tekjuhæstu áhrifavaldarnir árið 2018:

  1. Snorri Rafnsson (Vargurinn), áhrifavaldur/snappari    1,48 milljónir
  2. Birgitta Líf Björnsdóttir, áhrifavaldur/snappari     888 þúsund
  3. Camilla Rut Rúnarsdóttir, áhrifavaldur/snappari    710 þúsund
  4. Garðar Viðarsson (Gæji), áhrifavaldur/snappari    532 þúsund
  5. Hjálmar Örn Jóhannsson, grínisti og snappari    436 þúsund

Útreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjur á árinu 2018 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna starfa á fyrri ára. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .