*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 17. nóvember 2011 18:59

Varhugaverð sala á Icelandic USA

Framkvæmdastjórar þriggja íslenskra fiskvinnslufyrirtækja segja sölu á eignum Icelandic Group geta haft afdrifaríkar afleiðingar.

Ritstjórn

Þeim ávinningi sem náðst hefur á undanförnum áratugum í fisksölu á erlendum mörkuðum er stefnt í hættu með sölu Framtakssjóðs Íslands á eignum Icelandic Group í Bandaríkjunum. Þetta fullyrða þeir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks í Kópavogi, Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Grun í Grundarfirði og Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu á Suðureyri, í grein í Fiskifréttum, sem kom út í dag.

Eftir hádegið í dag tilkynnti sjóðurinn að hann hafi selt kanadíska matvælafyrirtækinu High Liner Foods reksturinn í Bandaríkjunum og í Kína fyrir 230,6 milljónir dala, jafnvirði 27 milljarða íslenskra króna. Hluti af samningnum er notkun á vörumerkinu Iceland Seafood í Bandaríkjunum í sjö ár. 

Salan ekki tekin aftur

Þeir Albert, Guðmundur Smári og Óðinn segja að íslenska framleiðendur enga tryggingu hafa fyrir sölu og dreifingu á íslenskum fiski í Bandaríkjunum í kjölfar sölu á eignum Icelandic Group vestanhafs. Því geti allt eins farið að það forskot sem íslenskur fiskur hefur haft í verði á erlendum mörkuðum hverfi í einu vetfangi og gæti það kostað verðlækkun afurða. Af þeim sökum hvíli mikil ábyrgð á því fólki sem fari með söluna; hún verði ekki aftur tekin.

Þá segja þeir það sæta furðu að Framtakssjóðurinn hafi ekki haft öfluga forystu og frumkvæði að því að kynna þennan fjárfestingakost hér heima á Íslandi, bæði vegna þess árangurs sem Icelandic Group í Bandaríkjunum og þeirra hagsmuna sem íslensk fyrirtæki eigi að gæta. 

 

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem komu út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.