Ríkisendurskoðun var að birta nýja skýrslu um ríkisábyrgðir og endurlán ríkissjóðs. Í skýrslunni varar Ríkisendurskoðun við því að lögum um ríkisábyrgðir sé vikið til hliðar þegar ríkissjóður veitir endurlán, en dæmi eru um að slíkt sé gert. Endurlán ríkissjóðs eru lán sem sjóðurinn veitir af sínu lánsfé til lögaðila.

Í skýrslunni kemur fram að í árslok 2014 hafi ríkisábyrgðir numið samtals 1.213 milljörðum króna. Stærstur hluti þess er vegna lána til Íbúðalánasjóðs, eða 73% og lána til Landsvirkjunar, eða um það bil 25%. Einungis tveir aðilar hafa fengið endurlán frá ríkissjóði frá árinu 2012 en þeir eru Lánasjóður íslenskra námsmanna og Vaðlaheiðargöng hf.

Í skýrslunni eru tekin dæmi um að lögbundið umsagnarhlutverk Ríkisábyrgðasjóðs hafi verið skert í sérlögum. Meðal tilvika þar sem vikið hefur verið frá lögunum var þegar Alþingi veitti ráðherra heimild til að ábyrgjast skuldabréf Íslenskrar erfðagreiningar árið 2002 og þegar Alþingi veitti ráðherra heimild til að fjármagna Vaðlaheiðagöng árið 2012.

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að hafa tilgang og markmið laganna ávallt að leiðarljósi þegar það leggur fram tillögur um ríkisábyrgðir eða endurlán ríkissjóðs.

Viðskiptablaðið greindi í gær frá niðurstöðum doktorsverkefnis Þórðar Víkings Friðgeirssonar , lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík þar sem kom fram að níu af hverjum tíu opinberum verkefnum fara fram úr áætlun.