Endurfjármögnun Landsbankans mun varla nást fyrir 14. ágúst, segir Þorsteinn Þorsteinsson, sem leiðir samninganefnd stjórnvalda gagnvart skilanefndum föllnu bankanna þriggja.

Flest bendir hins vegar til þess að hægt verði að ljúka uppgjöri hinna bankanna fyrir tilsettan tíma, þ.e.a.s. uppgjöri vegna skiptingar eigna milli gömlu og nýju bankanna.

Viðræður milli stjórnvalda og kröfuhafa ganga m.a. út á að meta þær eignir sem voru færðar frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju.

Flóknar viðræður og fjölbreyttur kröfuhafahópur

Þegar Þorsteinn er spurður hvers vegna endurfjármögnun Landsbankans muni varla nást fyrir 14. ágúst svarar hann því til að viðræður við kröfuhafa gamla Landsbankans séu að sumu leyti flóknari en við kröfuhafa hinna bankanna, Kaupþings og Glitnis. Þá sé kröfuhafahópur gamla Landsbankans fjölbreyttari en kröfuhafahópur hinna bankanna.

Kröfuhöfum gamla Landsbankans má skipta í þrjá hópa, þ.e.a.s þar eru í fyrsta lagi innstæðueigendur, í öðru lagi skuldabréfaeigendur og í þriðja lagi bankar, svo sem japanskir, þýskir og aðrir evrópskir bankar.

Þorsteinn segir að áhersla sé lögð á að hafa fulltrúa sem flestra kröfuhafa í viðræðunum og „það hefur orðið til þess að þær ganga hægar [hjá Landsbankanum]," útskýrir hann.

Fram kom á blaðamannafundi 20. júlí sl. að ríkið hygðist leggja Landsbankanum til 140 milljarða króna í hlutafé. Miðað sé við að sá banki verði alfarið í eigu ríkisins.

Erlendir kröfuhafar munu hins vegar eignast að stórum hluta Nýja Kaupþing og Íslandsbanka.