Varmaorka hefur gert samning við Arion banka um fjármögnun verkefna fyrir allt að 5,5 milljónir evra, andvirði 903 milljónir króna. Fyrirtækið nýtir umframvarma frá borholum til þess að framleiða rafmagn hérlendis.

„Lánið fellur undir samstarf Arion banka og European Investment Fund, EIF. Tilgangur samstarfsins er að veita fyrirtækjum aðgang að fjármagni á lægri vöxtum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og með því styðja við nýsköpun, örva atvinnulíf, rannsóknir og þróun,“ segir í fréttatilkynningu.

Fyrsta verkefni Varmaorku var við Kópsvatn í Hrunamannahreppi en þar er nú uppsett varmaver með framleiðslu upp á 600 kW af orku sem fór inn í dreifikerfið vorið 2019. Verið er að stækka varmarverið í 1.200 kW.

Enn fremur er verið að ljúka framkvæmdum í Reykholti í Borgarfirði vegna 300 kW framleiðslu og á Efri Reykjum í Bláskógabyggð er ráðgert að framleiða um 600 kW af orku í upphafi.

„Við erum mjög ánægð að ljúka við langtímafjármögnun við Arion banka fyrir verkefni næsta árs. Varmaver Varmaorku eru að jafnaði smá í sniðum en tækifærin víða við nýtingu umframvarma og til verðmætasköpunar.  Markmiðið félagsins er að stuðla að bættri nýtingu auðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan máta og vinna að orkuöryggi í heimabyggð“ segir Ragnar Sær Ragnarsson framkvæmdastjóri Varmaorku.