*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 31. október 2019 11:55

Varnarbarátta í miðborginni

Verð nýrra íbúða í miðborginni hefur lækkað. Munur á fasteignaverði í miðborginni og öðrum hverfum minnkað hratt.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verðmunur á milli íbúða í miðborg Reykjavíkur og annarra hverfa hefur lækkað hratt á síðustu árum. Þannig hefur verð íbúða í nálægum hverfum við miðborgina verið að jafnaði 6% ódýrari en í miðborginni á þessu ári. Munurinn var 20% á árinu 2017 og 16% á síðasta ári. Verðbilið milli miðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins hefur lækkað úr 31% 2017 í 16% á þessu ári. Þetta kemur fram í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans.

Meðalfermetraverð nýrra íbúða hefur lækkað um 8% í miðborginni á milli áranna 2017 og 2019 og 6% í Laugardalnum. Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir að meðalstærð nýrra íbúða í miðbænum hafi minnkað úr 133 fermetrum í 86 fermetra, en fermetraverð minni íbúða er alla jafna hærra en þeirra stærri.

Í öðrum hverfum hefur meðalfermetraverð nýrra íbúða hækkað. Mest er hækkunin í Hlíðum/Háaleiti, Urriðaholti upp á 18%, í Völlunum um 17% og 16% í Mosfellsbæ. 

Í greiningunni er bent á að töluverð umræða hafi verið um að hægt gangi að selja lúxusíbúðir í miðborginni og að framboðið sé nú þegar töluvert meira en eftirspurn á því verði sem býðst.