Jón Ásgeir Jóhannesson segist aldrei hafa átt meira en 1% hlut í íbúðum þeirra hjóna í New York. Þannig hafi íbúðirnar verið í 99% eigu eiginkonu hans, Ingibjargar Pálmadóttur, en samkvæmt bandarískri venju hafi hann á 1% hlut til að tryggja sig ef til andlátar Ingibjargar kæmi.

Þetta kemur fram í varnargrein Jóns Ásgeirs fyrir dómstóli í New York þar sem hann, ásamt öðrum stjórnarmönnum Glitnis banka, sætir nú stefnu af hálfu slitastjórnar Glitnis.

Íbúðirnar sem um ræðir eru íbúðir nr. 16 og 17 við 50 Gramercy Park North í New York. Í varnargrein vísar Jón Ásgeir þó til þess að í raun sé um þrjár íbúðar að ræða, þ.e. íbúð 16A annars vegar og íbúðir 17A og 18A hins vegar sem sameinaðar hafa verið í eina þakíbúð.

Kaupin á íbúðunum tveimur voru fjármagnaðar af Landsbankanum en fram kemur í greinagerð Jón Ásgeirs að í fyrstu hafi ekkert veð verið tekið. Þó kemur fram að Landsbankinn hafi síðar eignast veð í íbúð nr. 17 og samkvæmt samkomulagi við slitastjórn Landsbankans hafi Ingibjörg samþykkt að skila íbúðinni til bankans. Þannig hafi óvissu um eignir Ingibjargar á Íslandi jafnframt verið eytt og að Landsbankinn muni ekki ganga að þeim eignum.

Þá kemur jafnframt fram að Jón Ásgeir hafi gefið eftir 1% hlut sinn í íbúðunum. Það hafi ekki verið gert til að koma eigninni undan stefnu heldur hafi það verið hluti af samkomulagi Ingibjargar við Landsbankann. Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær Landsbankinn tekur íbúðina formlega yfir.