Glitnir fjármagnaði á sínum tíma lán Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur fyrir skíðaskála í Frakkland – án þess að taka veð í skálanum.

Þetta kemur fram í varnargrein Jóns Ásgeirs fyrir dómstóli í New York þar sem hann, ásamt öðrum stjórnarmönnum Glitnis banka, sætir nú stefnu af hálfu slitastjórnar Glitnis.

Áður hefur komið fram að skíðaskálinn, sem er í Courcheval í Frakklandi, var keyptur af BG Danmark, félagi sem í október 2008 var selt út úr Baugi Group til Gaums, eignarhaldsfélags Jóns Ásgeirs.

Til stóð að standa skil á greiðslum vegna skálans eftir áföngum og í varnargrein Jóns Ásgeirs kemur fram að það hafi átt að ráðast af því hvernig byggingu hans miðaði. Þá kemur fram að þegar BG Danmkark gat ekki staðið í skilum á greiðslunum hafi Jón Ásgeir og eiginkona hans, Ingibjörg, greitt fyrir skálann, ýmist úr eigin vasa eða í gegnum 101 Chalet.

Sem fyrr segir kemur kemur fram í varnargreininni að Glitnir hafi fjármagnað kaup hjónanna á skálanum án þess að taka veð í honum í byrjun. Það hefur ekki komið fram áður enda snýst stór hluti málssóknar slitastjórnar Glitnis að umræddum viðskiptum.

Þó hefur komið fram að Baugur Group gekkst í ábyrgð fyrir láninu síðar meir og hefur slitastjórn Glitnis krafið þrotabú Baugs um tvo milljarða króna vegna þessa.

Slitastjórnin heldur því fram að Glitnir hafi á sínum tíma veitt lán fyrir kaupunum með því skilyrði að það yrði greitt innan þriggja mánaða eða að öðrum kosti yrði skíðaskálinn seldur. Það er skemmst að segja frá því að Glitnir féll áður en lánið var endurgreitt.

Slitastjórnin heldur því jafnframt fram að þegar skálinn var svo seldur (skálinn var seldur til þriðja aðilar árið 2009) hefði söluandvirðið átt að renna inn í þrotabúið. Það hafi það ekki gert. Rétt er að minna á að áður hefur komið fram að skálinn var seldur með miklu tapi, eða tapi upp á rúmar 136 milljónir danskra króna.

Í varnargreininni furðar Jón Ásgeir sig á því að skilanefndin hafi ætlað honum að koma fjármagni vegna fyrirhugaðrar sölu á skálaunum undan. Það hafi aldrei staðið til heldur eigið þau hjónin í viðræðum við slitastjórnina um að endurgreiða lánið með vöxtum.