Jón Ásgeir Jóhannesson segir að einu verðmætu eignir sínar á Íslandi séu fyrrverandi heimili hans, bújörð og sumarhús. Hann sé hins vegar mjög hikandi við að selja þessar eignir.

Þetta kemur fram í varnargrein Jóns Ásgeirs fyrir dómstóli í New York þar sem hann, ásamt öðrum stjórnarmönnum Glitnis banka, sætir nú stefnu af hálfu slitastjórnar Glitnis.

Jón Ásgeir segir að erfitt væri að selja eignirnar nú og þær myndu alls ekki seljast fljótt. Þá segir hann að íslenskir fjölmiðlar myndu án efa fjalla um allar tilraunir hans til að selja eignir sínar og nær ómögulegt væri að selja eignirnar án þess að skattayfirvöld (sem farið hafa fram á frystingu eigna Jóns Ásgeirs hér á landi) tækju eftir því.

Í greinagerð Jóns Ásgeirs kemur fram að hann sæti nú þegar rannsókn skattayfirvalda vegna mála FL Group. Þannig séu eignir hans hér á landi nú þegar frystar, þrátt fyrir mótmæli sín. Það sé hins vegar íslenskra dómstóla að leysa úr því.   Þá segir Jón Ásgeir að eignir sínar í Bretlandi séu ekki jafn verðmætan en engu að síður seljanlegri. Þá segir Jón Ásgeir að eignirnar séu nú frystar en til standi að aflétta frystingunni og þá verði eignunum komið í verð til að standa undir neyslu og lögfræðikostnaði Jóns Ásgeirs. Þá ítrekar hann að frysting eigna sinna í Bretlandi þjóni engum tilgangi.