Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, áætlar að selja Rolls Royce bifreið sína sem Jón Ásgeir gaf henni í afmælisgjöf til að greiða upp hluta skulda sinna.

Þetta kemur fram í varnargrein Jóns Ásgeirs fyrir dómstóli í New York þar sem hann, ásamt öðrum stjórnarmönnum Glitnis banka, sætir nú stefnu af hálfu slitastjórnar Glitnis.

Þar kemur fram að slitastjórn Glitnsi hafi í maí sl. samþykkt að Jón Ásgeir greiddi bresku lögmannastofunni Macfarlanes um 100 þúsund Sterlingspund upp í lögfræðikostnað en sem kunnugt er hafa eignir Jóns Ásgeir verið frystar bæði hér á Íslandi sem og í Bretlandi. Um miðjan maí millifærði Jón Ásgeir 50 þúsund pund inn á reikning lögmannastofunnar út af reikningi sínum í breska Coutts bankanum sem sérhæfir sig í einkabankaþjónustu efnameiri einstaklinga.

Þá segir Jón Ásgeir jafnframt að lausafé hans á Bretlandi hafa skroppið sama og nemi nú 31.323 pundum (um 5,7 m.kr. á núverandi gengi) en rétt er að taka fram að vörn Jóns Ásgeirs var skrifuð í júní sl.

Þá segir Jón Ásgeir að slitastjórn Glitnis hafi samþykkt sölu hans á hlut sínum í JMS Partners fyrir 32 þúsund pund. Þess utan standi til að Ingibjörg selji fyrrnefnda bifreið og í kjölfarið verði þær upphæðir greiddar inn á reikning hans í Coutts bankanum. Þá segir í varnarskjali hans að þeim upphæðum verði varið í einkaneyslu og lögfræðikostnað.

Einnig kemur fram að slitastjórn Glitnis hafi í lok maí samþykkt að Jón Ásgeir fengi aukið svigrúm til að ráðstafa fé sínu í einkaneyslu, úr 2.500 pundum á viku í 5.000 pund (úr 450 þús.kr. í 900 þús.kr. á núverandi gengi). Jón Ásgeir segir að hann hafi farið fram á aukið svigrúm til að standa undir einkaneyslu sinni á Íslandi og Bretlandi.

Í framhaldi þessa segir Jón Ásgeir að þegar hann dvelji í New York lifi hann á kostnað eiginkonu sinnar, Ingibjargar. Þá leigi hann jafnframt íbúð í Lundúnum fyrir börn sín frá fyrra hjónabandi en til standi að þau flytji í ódýrara húsnæði og flytji loks til móður sinnar.

Þá segir Jón Ásgeir að stefna slitastjórnar Glitnis hafi reynst honum erfið í skauti. Hún hafi takmarkað fjárhagsnot hans, sé tímafrek fyrir einstakling á borð við hann, hún hafi reynst dýr og verið stressvaldandi. Þá hafi hann tapað stærstum hluta innkomu sinnar auk þess sem stefnan hafi skaðað orðspor hans verulega.