Efna hefði átt til útboðs á EES svæðinu vegna kaupa Varnarmálastofnunar á rafjöfnunarbúnaði á fyrri hluta þessa árs.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem nýlega gerði úttekt á nokkrum málum sem komið hafa upp varðandi rekstur Varnarmálastofnunar.

Skýrslan var birt í gær en segja má að Ríkisendurskoðun geri athugasemdir við margt sem snýr að rekstri stofnunarinnar, þ.e. kaupum ná símkerfi, kaupum á fyrrnefndum rafjöfnunarbúnaði og loks kaupum á dráttarvél. Nánar er fjallað um kaupin á símkerfi fyrir stofunina í tengdri frétt hér að neðan.

Varnarmálastofnun varði 38 milljónum króna. Ekki var leitað eftir verðum hjá aðilum sem selja þennan búnað en í janúar áttu starfsmenn Varnarmálastofnunar fundi með starfsmönnum fyrirtækisins HBT hf. þar sem rædd var þörf stofnunarinnar fyrir umræddan búnað. Að lokum fór það svo að búnaðurinn var keyptur af HBT eftir að fyrirtækið hafði sent Varnarmálastofnun tilboð.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að henni hafi verið ætlað að kanna mögulegt vanhæfi í ljósti þess að framkvæmdastjóri fyrirtækisins er fyrrum yfirmaður Ellisif Tinnu Víðisdóttur, forstjóra Varnarmálastofnunar auk nokkurra annarra stjórnenda Varnarmálastofnunar. Framkvæmdastjóri HBT var þá Jóhann R. Benediktsson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum en Ellisif Tinna starfaði áður, ásamt fleiri stjórnendum Varnarmálastofnunar, undir Jóhanni hjá lögregluembættinu á Suðurnesjum.

Jóhann er ekki lengur framkvæmdastjóri HBT en hann er þó á meðal eigenda situr í stjórn félagsins. Ríkisendurskoðun telur að lokinni úttekt að forstjóri VMSÍ og aðrir stjórnendur hafi ekki verið vanhæfir til að taka ákvarðanir um kaup á búnaðinum.

Varnarmálastofnun heldur því fram að enginn annar innlendur aðili hafi búið yfir sömu getu og umrætt fyrirtæki.Ríkisendurskoðun dregur það mat ekki í efa en minnir á að slík fyrirtæki sé að finna erlendis sem þegar hafi verið öryggisvottuð.

„Eðlilegt hefði verið, fyrst undanþáguákvæði vegna öryggishagsmuna var beitt, að leita eftir tilboðum frá slíkum fyrirtækjum áður en rætt var við fyrirtæki sem ekki hafði verið vottað,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þá kemur loks fram að Ríkisendurskoðun treysti sér ekki til að sannreyna eða leggja mat á hvort um hagkvæmustu lausn hafi verið að ræða, þó flest virðist benda til þess, þar sem skjölum vegna innkaupana séu takmörkuð og ábótavant.