Geir H. Haarde forsætisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna undirrituðu í gær samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál, segir í fréttatilkynningu.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra var einnig viðstaddur undirritunina. Samkomulagið var kynnt opinberlega 26. september síðastliðinn. Undirritunin fór fram í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í Washington.

Áður en samkomulagið var undirritað áttu forsætisráðherra og utanríkisráðherra fund með Condoleezza Rice um samskipti landanna og um alþjóðamál. Ráðherrarnir munu eiga fleiri fundi með bandarískum ráðamönnum í dag.

Í varnarsamningnum segir meðal annars:

"Ísland og Bandaríkin hafa átt samráð um varnaráætlun fyrir Ísland sem Bandaríkin hafa samið. Ísland samþykkir áætlunina sem gerir ráð fyrir því að varnir Íslands séu tryggðar með öflugum og hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla og að hún sé studd bandarískum hernaðarmætti eftir því sem þörf krefur."

"Banaríkin og Ísland hafa gert ráðstafanir til að tryggja hröð og skilvirk samskipti milli stjórnvalda á hættutímum, þar á meðal við hernaðaryfirvöld eftir því sem þörf er á."