Í sameiginlegri yfirlýsingu áréttar varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og utanríkisráðuneyti Íslands viðvarandi skuldbindingu sína um náið samstarf á sviði varnar- og öryggismála, hvort tveggja tvíhliða sem og á vettvangi Attlantshafsbandalagsins.

Varnarsamningurinn treystur

Varnarsamningurinn frá 5.maí 1951 verður áfram undirstaða samstarfs milli landanna tveggja á sviði varnarmála og áréttar varnarmálaráðuneytið skuldbindingu sína viðvíkjandi vörnum Íslands. Er það meðal annars gert með áætlun sem tryggja á varnir Íslands með öflugum og breytanlegum úrræðum og liðsafla segir í yfirlýsingunni.

Verður kannað að auka samstarf á sviðum eins og við leit, björgun og neyðaraðstoð, með sameiginlegum æfingum, þjálfunarstarfi og starfsmannaskiptum. Þó kemur fram að samstarfið muni ekki einskorðast við þessi svið.

Kemur meðal annars fram að áframhald verður á reglulegum viðræðum háttsettra fulltrúa í samráði um öryggismál auk tvíhliða viðræðna sérfræðinga um samstarf í varnar- og öryggismálum. Verður það bæði hernaðarlegt og af öðrum toga sem þjóna sameiginlegum hagsmunum, eins og tölvuöryggi, öryggi á hafi og skipti á trúnaðarflokkuðum upplýsingum og um önnur málefni eftir því sem gagnkvæmt samkomulag er um.

Vinstri-græn segja öryggi ekki tryggt með vígtólum

Steinunn Þóra Árnadóttir fulltrúi Vinstri-grænna í utanríkismálanefnd Alþingis segir í yfirlýsingu að túlka beri yfirlýsinguna sem skref íslenskra og bandarískra stjórnvalda í þá átt að starfrækja herstöð hér á landi á ný. Segir jafnframt að frekar ætti að segja varnarsamningnum upp heldur en að skerpa á honum, því öryggi Íslansds á 21. öldinni verði ekki tryggt með hernaðarbandalögum, orrustuflugvélum eða öðrum vígtólum.

Telur hún jafnframt óviðeigandi að utanríkisráðherra hafi beðið fram á síðasta starfsdag nefnda fyrir sumarleyfi með að upplýsa utanríkismálanefnd um að til stæði að undirrita yfirlýsinguna. Segir í yfirlýsingunni að íslenskir ráðamenn hafi gert lítið úr fréttum í erlendum fjölmiðlum um aukin umsvif Bandaríkjahers á Ísland og notað orðhengilshátt um að ekki séu uppi viðræður um viðvarandi veru herliðs á Íslandi.