Þrátt fyrir tæplega 20% lækkun olíuverðs í dag og ríflega 40% lækkun það sem af er ári hafa flugfélög, sem annars ættu að taka lækkununum fagnandi á sama tíma og dregið hefur verulega úr eftirspurn eftir flugi þurft að horfa upp á eldsneytisvarnir þeirra valda brenna upp stóran hluta ágóðans af lækkandi verði.

Fjölmörg evrópsk flugfélög hafa þann háttinn á að þau verja sig fyrir hækkunum á eldsneytisverði með kaupum á framvirkum samningum eða kaupréttum og festa þannig verð á eldsneyti fram í tíman. Þannig hafði Ryanair fest um 90% af eldsneytiskaupum sínum um síðustu áramót, Lufthansa um 73%, EasyJet um 71%, Air France-KLM um 66% og SAS um 65% samkvæmt frétt Bloomberg .

Sem dæmi má nefna að verðið sem Ryanair hafði fest var um 606 dollarar á eitt rúmtonn sem samsvarar um 77 dollurum á tunnuna sem stendur nú í um 36 dollurum. Verðið hjá Air France-KLM var enn hærra eða 78,5 dollarar á tunnuna. Þess ber þó að geta að verð á flugvélaeldsneyti hefur undanfarið verið um 20% hærra en verð á brent hráolíu.

Þetta á einnig við um Icelandair sem hafði um síðustu áramót varið um 47% af eldsneytisnotkun þessa árs á 644 dollara að meðaltali á rúmtonnið sem samsvarar um 80 dollurum á tunnuna af flugvélaeldsneyti.