Ef marka má viðtal gríska fjármálaráðherrans, Yanis Varoufakis, á ítölsku sjónvarpsstöðinni RAI þá telja grísk stjórnvöld að ríkisstjórnir evrusvæðisins geti ekki annað en látið undan kröfum Grikkja um að samið verði á ný um skilmála björgunarpakkans frá árinu 2010. Greint er frá þessu í breska blaðinu Telegraph.

Sagði Varoufakis að það væri ekki í myndinni að Grikkir yfirgæfu evruna því evran væri of viðkvæm. „Þetta er eins og spilaborg. Ef þú fjarlægir gríska spilið þá hrinja öll spilin.“

Spurði hann hvort nokkur vildi sjá Evrópu klofna. „Hver sá sem freistast til að halda að hægt sé að skera Grikkland frá Evrópu ætti að fara varlega.“ Velti hann því fyrir sér hvaða ríki myndu næst verða fyrir barðinu á kreppunni og nefndi Portúgal og Ítalíu sem dæmi. „Hvað verður um Ítalíu þegar hún kemst að því að það er ómögulegt að halda sig innan þeirra marka sem aðhaldsaðgerðirnar hafa skapað?“

Grískir fjárfestar kaupa gull

Eftirspurn eftir gulli meðal grískra fjárfesta hefur aukist undanfarið, en þeir eru að leita að leið til að verja fjármagn sitt fyrir þeim pólitíska óstöðugleika sem verið hefur undanfarið í landinu.

Bloomberg hefur eftir myntsláttu breska ríkisins að eftirspurn eftir gullmyntum hafi aukist undanfarið. Það gerist gjarnan á tímum pólitískrar og efnahagslegrar óvissu. Myntsláttan vildi ekki gefa upp nánari upplýsingar um sölu gullmynta til grískra fjáfesta, en vitað er að gríski seðlabankinn seldi 5.849 breskar gullmyntir í janúar, samanborið við 7.857 myntir á fjórða ársfjórðungi 2014.