Svo virðist sem að samningaviðræður grískra stjórnvalda við aðila Evrusvæðisins um nýja skilmála björgunarpakka til Grikklands munu ganga hægt ef marka má nýleg ummæli Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands og Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.

Í viðtali við þýska útvarpsrás sagði Schäuble að hann „vorkenndi grikkjum“. „Þeir hafa kosið stjórnvöld sem eru að hegða sér óskynsamlega að svo stöddu,“ sagði Schäuble.

Varoufakis birti í morgun aðsenda grein í New York Times þar sem hann gerði samningaviðræðurnar að umtalsefni.

Í henni sagði hann m.a. að stærsti munurinn á núverandi ríkisstjórn í Grikklandi og fráfarandi ríkisstjórn væri tvöfaldur: „Við erum ákveðin í því að berjast við hagsmunaðila til að öðlast traust samstarfsaðila okkar á ný. Við erum einnig ákveðin í að láta ekki koma fram við okkur eins og skuldanýlenda sem ætti að lýða þjáningar þess vegna ... Ég er oft spurður: Hvað ef eina leiðin til að tryggja fjármagn sé að fara yfir rauðar línur og samþykkja aðgerðir sem þú telur vera hluta af vandanum? Því svara ég, samkvæmur því að ég stunda enga blekkingarleiki, að við munum ekki stíga yfir þær línur sem við höfum sagt vera rauðar. Annars væru þær ekki raunverulega rauðar heldur aðeins blekkingarleikur,“ sagði Varoufakis.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times auk þess sem fylgst er með viðræðunum í rauntíma á vef The Guardian .