Svava Johansen, eigandi NTC segir að salan í verslunum hafi dregist saman um rúmlega 80% frá upphafi samkomubanns. „Í kringum 15. mars varð þetta stóra högg. Það var eins og tappinn hefði verið tekinn úr.“ Hins vegar hafi velta í netverslun NTC aukist um mörg hundruð prósent sem hafi mildað höggið.

Allir starfsmenn NTC voru færðir niður í 25% starf í apríl í gegnum hlutabótaleiðina. „Starfsfólkið okkar var til í að fara í þessa hlutastarfaleið með okkur. Maður finnur að fólki finnist vænt um fyrirtækið sitt,“ segir Svava en um 110 manns starfa hjá NTC sem rekur þrettán verslanir. „Ég veit ekki hvort við hefðum lifað af ef við hefðum ekki fengið þessa aðstoð,“ segir Svava.

Hækka á starfshlutfall á ný í maí og hún vonast til að hægt verði að ráða sumarstarfsfólk. Þegar minnst var um að vera hafi tveir unnið í búðum þar sem alla jafna séu fjórir til fimm starfsmenn. Í sumum verslunum sé búið að fjölga þeim upp í þrjá og Svava vonast til að verslanir verði fullmannaðar sem fyrst.

Viðspyrnan í höndum okkar allra

Starfsmannafjöldinn velti þó að lokum á hve margir heimsæki verslanirnar.

„Við erum að dansa í takt við tónlistina,“ segir Svava. „Það er í höndum okkar allra að halda hjólunum gangandi eins og við getum. Við sköpum tækifærin sjálf. Ef það er meira að gera hjá okkur ráðum við fleira starfsfólk. Það getur haft alveg skelfilegar afleiðingar ef við ætlum öll að halda að okkur höndum.“

Gagnrýnir misnotkun á hlutabótum

„Það vita allir starfsmennirnir okkar að við biðjum þá ekki að vera í 25% starfi en vinna meira en það,“ segir Svava. Starfsmenn sem hafi farið í starfshlutfall umfram 25% eftir að verslunin tók að glæðast fá greitt samkvæmt því.

Hún gagnrýnir fyrirtæki sem hafi sett starfsfólk á hlutabætur en láti það vinna meira en uppgefið starfshlutfall án þess að greiða fyrir það. „Mér finnst það skammarlegt. Það á að vera meiri stolt og reisn hjá þeim sem eru að reka fyrirtæki. Við vitum alveg hvaðan þessir peningar koma. Þetta er greitt af tryggingagjaldinu og sköttum allra landsmanna,“ segir Svava.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .