Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, hefur tilkynnt Vatíkaninu að gildandi skattaundanþágur þess verði nú afnumdar og kemur Vatíkanið til með að greiða 720 milljónir evra árlega í eignaskatt. Það jafngildir meira en 120 milljörðum íslenskra króna á gengi krónu gagnvart evru í dag.

Vatíkanið hefur á síðastliðnum árum verið undanþegið greiðslu á eignaskatti en mun nú þurfa að greiða skatt af öllu húsnæði sem ekki er notað fyrir starfsemi kirkjunnar.

Kaþólska kirkjan á Ítalíu á um 110.000 eignir og er virði þeirra um 9 milljarðar evra. Þar á meðal eru verslunarmiðstöðvar og íbúðarhúsnæði.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, munu ítölsk skattayfirvöld nú leggjast í útreikninga á því hve mikið af húsnæði Vatíkansins er ekki nýtt í trúarlegum tilgangi og skattleggja það samkvæmt lögum.