Kalda vatnið kostar meira í Reykjavík en í Stokkhólmi. Á ársgrundvelli kostar það 28.773 íslenskar krónur á Íslandi, en 28.391 íslenskar krónur í Stokkhólmi. Þetta er tæplega 400 króna munur á kaldavatnsverði. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Samorku.

Verðið er miðað við þrjá íbúa í 100 fermetra íbúð. Dýrast er vatnið í Kaupmannahöfn, eða tæplega 100 þúsund íslenskar krónur á ári. Í Helsinki kostar vatnið 50.749 íslenskar krónur á ári og í Osló um 46 þúsund krónur á ári.

Þá ber að nefna að Reykjavík er eina borgin af þeim sem taldar hafa verið upp þar sem ekki er greiddur virðisaukaskattur af kalda vatninu. Af vatnskostnaði í Stokkhólmi eru 5.600 krónur íslenskar virðisaukaskattur, sem þýðir að munurinn er talsvert meiri sé virðisaukaskattur undanskilinn.

Taka skal fram að í Stokkhólmi er greitt fyrir vatnsnotkun og er því greitt eftir magni. Á Íslandi er hins vegar greitt fast gjald eftir fasteignamati. Stokkhólmsbúar nota minna af vatni og því er reikningurinn þeirra í heild lægri en vatnsreikningurinn á Íslandi.