Orkuveitan hefur sent út tæplega 60 þúsund álagningarseðla vatns- og fráveitugjalda vegna ársins 2012. Gjald fyrir þjónustuna hækkaði um áramót til samræmis við byggingavísitölu, eins og fyrri ár, og nemur hækkunin 10,69%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveitan tók við innheimtu vatns- og fráveitugjalda í ársbyrjun 2011 en áður höfðu þau verið innheimt með fasteignagjöldum sveitarfélaga. Þau sveitarfélög þar sem fyrirtækið innheimtir gjöldin nú í annað skipti eru Reykjavík, Akranes, Borgarbyggð og Álftanes, þar sem Orkuveitan á og rekur vatnsveituna. Nú í ár bætist við innheimta á vatnsgjöldum í Stykkishólmi og í Grundarfirði, í Hvalfjarðarsveit og í Úthlíð í Biskupstungum.

Tæpar 4.000 kr. hækkun

Í tilkynningu er tekið dæmi um algenga breytingu á vatns- og fráveitugjalds. Fyrir 100 fermetra íbúð í Reykjavík hækkaði fráveitugjaldið um áramótin um sem nemur 3.878 krónum á árinu 2012 og vatnsgjaldið um 2.420 krónur. Samtals eru þetta 6.298 krónur eða 525 krónur á mánuði.

Fjárhæð gjaldsins er mismunandi eftir sveitarfélögum. Í Reykjavík er fastagjaldið 8.263 krónur árið 2012 og breytilega gjaldið 319 krónur á hvern fermetra á ári. Það þýðir að af 100 fermetra íbúð er heildargjaldið 40.158 kr.