Jón Ólafsson, sem löngum var þekktur sem stofnandi Skífunnar, flutti lögheimili sitt frá London um mánaðamótin til Hong Kong í Asíu. Þar hefur hann í nógu að snúast í sölu á vatni um álfuna þvera og endilanga.

Jón Ólafsson (Mynd: DV)
Jón Ólafsson (Mynd: DV)
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Jón rekur með einum eða öðrum hætti tvö vatnsfyrirtækið. Annað þeirra er átöppunarfyrirtækið Icelandic Water Holdings sem hann stofnaði fyrir nokkrum árum með Kristjáni syni sínum en það framleiðir vatn á plastflöskum undir merkjum Icelandic Glacial í landi Hlíðarenda við Þorlákshöfn og selur víða um heim, þar á meðal í Asíu. Fyrirtækið eiga þeir feðgar með nokkrum fjárfestum, þar á meðal bandaríska drykkjavörurisanum Anheuser-Busch.

Til viðbótar við þetta á Jón vatnsfyrirtækið Pacific Water & Drinks. Fyrirtækið er skráð í Hong Kong. Það keypti í október kínverska átöppunarfyrirtækið China Water & Drinks. Fyrirtækið samanstendur af níu fyrirtækjum í nokkrum stórum héruðum í Kína. Rúmlega þúsund manns starfa hjá fyrirtækjunum og er framleiðslugeta fyrirtækjanna 1,3 milljarðar flaskna á ári.

Það var netmiðillinn Pressan sem fyrst greindi frá flutningi Jóns til Asíu í gær og vitnaði til Facebook-síðu hans.

Heldur fimm heimili - ætlar að halda þeim öllum

Jón heldur nú fimm heimili, eitt í Hong Kong, eitt í kvikmyndaborginni Los Angeles, annað í standbænum Cannes í Suður-Frakklandi og það fjórða við Baldursgötuna í Reykjavík sem tekið var í gegn og Jón flutti inn í fyrir stuttu síðan. Hann var staddur í Bretlandi fyrr í dag þar sem hann á eitt heimili til viðbótar en var á leið sinni hingað til lands.

Spurður hvort hann ætli að selja heimili sitt hér í kjölfar flutningsins til Asíu segir hann svo ekki vera. „Nei, nei, það fer ekki á sölu,“ svarar hann í samtali við Viðskiptablaðið og bætir við að í raun skipti litlu skipti hvar hann búi. Hann sé þar sem markaðsstarfið standi sem hæst hverju sinni. Nú sé Asía málið og sé gert út frá Hong Kong.