Ari Jónsson hannaði nýlega flösku úr rauðþörungum sem brotnar niður á um það bil tveimur vikum eftir að vökvinn í henni hefur verið tæmdur. Verkefnið var unnið í vöruhönnunardeild Listaháskólans en hann vonast til að halda áfram að vinna í eiginleikum flöskunnar.

Ari segir að einn helsti eiginleiki flöskunnar sé að hún haldi formi sínu meðan það sé vökvi í henni. Um leið og vökvinn hefur verið drukkinn er hún fljót að þorna upp og byrjar að brotna nið- ur. „Eftir að hún hefur brotnað niður þá getur maður sett hana í raka mold og þá myglar hún og brotnar niður í moltu. Þetta gæti verið notað sem áburður. Það sem mig langar að kanna er hvort ég geti margnýtt flöskuna, þ.e. búið til nýja flösku úr efninu eftir að hún hefur brotnað niður.“

Annar áhugaverður eiginleiki flöskunnar er að flaskan sjálf, og vökvinn í henni, heldur sér köldum jafnvel þótt hún sé geymd við stofuhita. Ari segir að það virki á svipaðan hátt og þegar maður svitnar til að kæla líkamann niður. „Orkan sem leysist úr læðingi þegar vatnið í flöskunni gufar upp, kælir flöskuna og innihaldið. Jafnvel þótt hún hafi verið á stofuborði í tvo daga þá helst hún köld. Þetta er svona eins og maður hafi verið að taka hana úr ísskáp.“

Á myndinni fyrir neðan má sjá flöskuna brotna niður á einni viku.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er rætt við Ara um flöskunar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með að ýta á Innskráning.