Vatnsvirkinn hf. hefur keypt allt hlutafé í fyrirtækinu Vatn og Hiti ehf. af þeim Sævari Stefánssyni og Valtýr Sævarssyni, segir í tilkynningu.

Eigendur Vatnsvirkjans hafa nú þegar tekið við rekstri Vatns og Hita. Stefnt er að sameiningu fyrirtækjanna undir nafni Vatnsvirkjans. Áætluð samanlögð velta fyrirtækjanna í ár verður nærri 1 milljarður. Kaupverðið er trúnaðarmál.
"Með kaupum á Vatn og hita er Vatnsvirkinn að renna frekari stoðum undir meginstarfsemi Vatnsvirkjans, sem er sala á lagnaefni fyrir pípulagningamenn. Vatn og hiti er þekkt nafn á markaðnum og markmiðið er að reka fyrirtækið með sama fyrirkomulagi og hefur verið gert með góðum árangri undanfarin ár," segir Hjalti Ólafsson framkvæmdastjóri Vatnsvirkjans.

Vatnsvirkinn hf. er leiðandi í sölu á lagnaefni fyrir pípulagningamenn og vatnsveitur á Íslandi. Fyrirtækið rekur þrjá verslanir; á Smiðjuvegi í Kópavogi, í Dalshrauni í Hafnarfirði og í Ármúla í Reykjavík, en þar er einnig starfrækt hreinlætistækjaverslun. Hjá fyrirtækinu starfa 25 manns.

Fyrirtækið Vatn og hiti, sem er staðsett að Smiðjuvegi í Kópavogi, hefur selt lagnaefni til pípulagningamanna frá árinu 1998. Hjá fyrirtækinu starfa 9 manns.


Eigendur Vatnsvirkjans ehf. eru Anna Linda Magnúsdóttir, Fjölvar Darri Rafnsson, Hjalti Ólafsson og Róbert Melax.