Rúm tíu ár eru liðin frá því að Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group , tók við stýrinu hjá Icelandair Group , ekki löngu áður en íslenska fjármálakerfið hrundi með tilheyrandi áskorunum fyrir flugfélagið. Árið 2016 hagnaðist félagið um 89,1 milljón dollara og EBITDA félagsins var um 220 milljónir. Árið áður hagnaðist Icelandair um 111,2 milljónir.  Hagnaðurinn var nokkru minni í fyrra,  um 3,9 milljarðar króna eða 37,7 milljónir dollara og var EBITDA um 170 milljónir dollara, sem er hæsta EBITDA í sögu félagsins að árunum 2015 og 2016 undanskildum. Ítarlegri umfjöllun um uppgjör félagsins er á blaðsíðu 14 í VIðskiptablaði vikunnar.

EBITDA-spá Icelandair fyrir 2018 er á bilinu 170 til 190 milljónir dollara, en EBITDA félagsins var 170 milljónir dollara á síðasta ári, langt undir því sem hún var árið 2016.

„Það er ljóst að það eru töluverðar breytingar í umhverfinu,“ segir Björgólfur. „Í fyrsta lagi er samkeppnisumhverfið breytt og er sífellt að breytast. Í öðru lagi hefur eldsneytisverð hækkað mikið. Við reiknum með að meðalolíuverð á árinu verði 625 dollarar á tonnið. Þetta er á bilinu 30-40% hækkun frá byrjun árs 2017.“ Björgólfur segir að í öllu eðlilegu umhverfi þar sem kostnaðarhækkun sem þessi verður, og að við bætist aðrar kostnaðarhækkanir á borð við launahækkanir, að þá hækki tekjur á móti. Það hafi hins vegar ekki verið raunin. „Spurningin er hins vegar hvernig samkeppnin tæklar það. Við reiknum með því að það verði breyting á þessu þegar líður á árið 2018 og að meðalfargjöld fari hækkandi. Hvort þetta sé það sem koma skal þá geta menn auðvitað velt fyrir sér hvað er góð afkoma og hvað er léleg afkoma. 2015 og 2016 voru verulega sterk ár. Olíuverð fór lækkandi á þessum tíma en meðalfargjöld lækkuðu ekki til samræmis og sýndi flugheimurinn almennt mun betri rekstur á árunum 2015 og 2016,“ segir Björgólfur.

Þetta á einnig við um helsta keppinaut Icelandair , Wow air , en fram kom í viðtali við Skúla Mogensen í Áramótatímariti Viðskiptablaðsins að síðasta ár væri hlutfallslega ekki jafngott og árið 2016. Efnahagur Icelandair er sterkur, bæði þegar horft er til eigin og handbærs fjár. „ Sjóðstreymi félagsins á árinu 2017 er mjög sterkt. Þessi sterki efnahagur gerir okkur betur í stakk búin til að takast á við vöxt félagsins í framtíðinni. Við erum auðvitað að takast á við nýja tíma á nýju ári með nýjum flugvélum, sem breytir okkar umhverfi töluvert mikið og gefur aukin tækifæri í lægri eldsneytiskostnaði en á sama hátt verður eignarhaldskostnaður hærri auk þess sem  vélarnar eru öðruvísi og kalla á öðruvísi þjálfun flugmanna,“ segir Björgólfur.

Horfa á hagsmunina til lengri tíma

Rekstur Icelandair er að sögn Björgólfs hugsaður til langs tíma, enda á félagið sér langa sögu. „Allar ákvarðanir sem við tökum þarf að byggja þannig upp að þær séu góðar fyrir hluthafana til lengri tíma litið. Þar af leiðandi förum við ekki í vöxt bara til að vaxa heldur horfum alltaf til þess að vöxturinn sé arðbær og við megum ekki missa sjónar af því,“ segir Björgólfur. Miklar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi félagsins undanfarin misseri. „Það styrkir okkur, bæði inn á við og út á við. Skipulagið hefur verið straumlínulagað og við erum að stytta allar boðleiðir þannig að ákvarðanir verði teknar hraðar, markvissar og að allir sem ákvarðanirnar snertir viti hvert við erum að fara á hverjum tíma og hlaupi með okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .