Íslensk þjónustufyrirtæki sem hyggja á útrás virðast nýta sér viðskiptasérleyfi (franchise) í vaxandi mæli. Hingað til hefur verið mun algengara að Íslendingar kaupi erlend sérleyfi og setji á stofn hér á landi frekar en að selja útlendingum sérleyfi á íslenskum viðskiptahugmyndum. Meðal þeirra fyrirtækja sem vinna að stofnun erlends sérleyfis eru Bláa lónið og íslenska snyrtivörufyrirtækið No name sem rekur m.a. förðunarskóla. Kostir sérleyfa eru einkum lítil fjárhagsleg áhætta og fljótlegir stækkunarmöguleikar.

SVÞ hafa orðið vör við verulega vaxandi áhuga þjónustufyrirtækja á þessu viðskiptaformi og hafa veitt fyrirtækjum aðstoð af ýmsum toga, bæði í formi almennrar ráðgjafar og á við að ná tengslum við erlenda viðskiptaaðila.

Algengustu sérleyfisfyrirtækin bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar eru sérvöruverslanir og skyndibitakeðjur, en mun meiri vöxtur er í sérleyfum á fjölmörgum öðrum sviðum þjónustu, enda er talið að sérleyfi sé algengasta aðferðin sem notuð er við stækkun fyrirtækja á Vesturlöndum.