Fjárfestar hafa vaxandi áhyggjur af heilsufari frumkvöðuls og stjórnanda tölvufyrirtækisins Apple, Steve Jobs, að því er fram kemur í The New York Post í dag. Jobs þótti áberandi horaður þegar hann kom fram á árlegri þróunarráðstefnu fyrirtækisins fyrir um mánuði og síðan hafa bollaleggingar um heilsufar hans vaxið stöðugt.

Velta menn m.a. vöngum um hvort að Jobs, sem er 53 ára gamall, hafi veikst að nýju, fjórum árum eftir að hann glímdi við krabbamein í briskirtli. Læknar réðu niðurlögum þess með skurðaðgerð en menn óttast að krabbinn hafi tekið sig upp að nýju eða áhrifa þess gæti enn á heilsu Jobs með einhverjum hætti.

Enginn staðgengill í sjónmáli

Áhyggjur fjárfesta stafa m.a. af því að Apple mun ekki hafa gert ráð fyrir að einhver geti hlaupið í skarðið fyrir Jobs, þurfi hann skyndilega að hverfa frá völdum. Bent er á í því sambandi að þegar Jobs veiktist seinast þótti Apple hafa brugðist tilkynningaskyldu sinni, en ekki var greint frá krankleika hans fyrr en eftir að hann hafði gengist undir skurðaðgerð vegna meinsins, eða um níu mánuðum eftir að hann greindi stjórn fyrirtækisins fyrst frá veikindum sínum.

New York Post segir að aðilar sem það hafi rætt við og hitt hafa Jobs nýlega segist hafa miklar áhyggjur af honum og hversu horaður hann er orðinn. Apple hefur ekki tjáð sig um málið.