Almenn andstaða er á meðal íbúa ríkustu þjóða heims við alþjóðavæðingu og gagnvart forustumönnum stærstu fyrirtækja atvinnulífsins. Stór meirihluti fólks í Bandaríkjunum og Evrópu (Bretlandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Þýskalandi) vill að hinir ríku séu skattlagðir í meira mæli en nú er gert og sett sá þak á launagreiðslur til framkvæmdastjóra í viðskiptalífinu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skoðanakönnun sem Financial Times framkvæmdi nýverið.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar kemur í ljós að almenningur í Bretlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Spáni er þrisvar sinnum líklegri til að álíta að alþjóðavæðing sé að hafa neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fremur en jákvæðar á land sitt.

Álit almennings á leiðtogum í viðskiptalífinu mælist heldur ekki mikið. Færri en 5% Bandaríkjamanna og Evrópubúa (fyrir utan Ítala) segjast hafa mikla aðdáun á framkvæmdastjórum stórra fyrirtækja. Í þessum sömu löndum sögðust á bilinu 30% til 50% aðspurða ekki hafa neina aðdáun í garð leiðtoga viðskiptalífsins.

Þrátt fyrir að Evrópubúar séu enn í miklum meirihluta á þeirri skoðun að "frjáls samkeppni" eigi að vera eitt af helstu markmiðum Evrópusambandsins (ESB), þá telja þeir engu að síður að stjórnvöld eigi að bregðast við í auknum mæli við vaxandi ójöfnuði og þeim ofurlaunum sem tíðkast í viðskiptalífinu í kjölfar alþjóðavæðingarinnar, með því að hækka skatta á þá ríku. Margir telja að hinar háu launa- og bónusgreiðslur séu óréttlætanlegar og endurspegli neikvæðar hliðar alþjóðavæðingarinnar. Að mati 60% almennings í fjórum Evrópulöndum - Bretlandi, Spáni, Ítalíu og Frakklandi - ætti að setja ákveðið launaþak á slíkar greiðslur til forystumanna í viðskiptalífinu.

Í frétt Financial Times segir að niðurstaða könnunarinnar - en úrtak hennar var um þúsund manns í hverju landi fyrir sig - hljóti að vekja upp ákveðnar spurningar á meðal stjórnmálamanna og helstu leiðtoga viðskiptalífsins: Almenningur á meðal ríkustu þjóða heims virðist í sívaxandi mæli draga í efa þann efnahagslega ávinning sem opnun hagkerfa og aukin fríverslun undanfarin ár og áratugi hefur haft í för með sér fyrir lífskjör venjulegs fólks.