Erlend fyrirtæki eru í vaxandi mæli að kaupa upp bresk félög. Samkvæmt tölum hagstofu Bretlands (National Statistics) nema slík kaup á síðasta ársfjórðungi 2005 samtals 15,2 milljörðum punda, eða sem svarar um 1.670 milljörðum íslenskra króna. Minnst er á sókn íslenskra fyrirtækja inn á breska markaðinn í þessu sambandi og áhuga m.a. Íslendinga á easyJet sem staðsett er á flugvellinum í Liverpool.

Nemur aukningin í þessum viðskiptum á fjórða ársfjórðungi 2005 um 3 milljörðum punda frá sama tíma árið 2004. Eru tölurnar um fyrirtækjakaup á síðasta ári þær hæstu sem sést hafa síðan netbóluæðið (dot com) stóð sem hæst um nýliðin aldamót. Á þriðja ársfjórðungi árið 2000 náðu kaup í breskum fyrirtækjum því að vera 38,2 milljarðar punda í mikilli uppsveiflu á verðbréfamörkuðum heimsins.

Á sama tíma og útlendingar sækjast eftir breskum félögum eru bresk fyrirtæki ekki eins virk í að sækjast eftir kaupum á hliðstæðum fyrirtækjum utan Bretlands. Þannig voru bresk fyrirtæki ekki að sækjast eftir erlendum félögum fyrir nema 5 milljarða punda á síðasta ársfjórðungi síðasta árs og höfðu kaupin þá lækkað úr 7,2 milljörðum frá þriðja ársfjórðungi.

Ein stærstu kaup útlendinga á breskum fyrirtækjum á síðasta ársfjórðungi voru kaup franska byggingariðnaðarfyrirtækisins Compagnie de Saint-Globain á gifsplötufyrirtækinu BPB fyrir 3,9 milljarða punda. Fleiri fyrirtæki eru nefnd til sögunnar eins og easyJet sem íslenskir fjárfestar eru sagðir hafa mikinn áhuga á. Þá er einnig nefnt að sænska fyrirtækið Sony-Ericsson hafi borið víurnar í fyrirtækin O2, P&O og Marconi. Japanski glerframleiðandinn Nippon Sheet Glass er síðan sagður vonast til að geta keypt keppinautinn Pilkington sem staðsettur er í St Helens fyrir meira um eða yfir 2 milljarða punda.

Margir sérfræðingar telja þó litlu skipta hver eigi fyrirtækin svo lengi sem störfin og fjármunirnir vegna fjárfestinga útlendinga haldist í Bretlandi. Það er þó líka bent á að ef hagnaður bresku fyrirtækjanna sem keypt eru upp af útlendingum endar erlendis, þá geti breska ríkið orðið af hundruða milljóna punda skattatekjum.