Meirihluti þjóðarinnar vill geta keypt léttvín og bjór í matvöruverslunum. Samkvæmt niðurstöðum í nýjum Þjóðarpúls Gallup eru 59% fullorðinna Íslending hlynnt afnámi einkasölu ríkisins á smásölu léttvíns og bjórs. Þessi niðurstaða er sambærileg við fimm aðrar sambærilegar kannanir sem gerðar hafa verið síðastliðin fimm ár segir í frétt frá SVÞ.

Kannanirnar, sem bæði hafa verið framkvæmdar af Gallup og PricewaterhouseCoopers á undanförnum árum, sýna að stuðningur við frelsi í sölu áfengis fer vaxandi. Könnun frá 2001 sýndi 54,6% fylgi við sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum en er nú komið í 59%. Þessar niðurstöður sýna glögglega að neysluvenjur landsmanna færast sífellt meira í átt til þess sem viðgengst meðal annarra þjóða sem telja léttvín og bjór vera hluta af máltíð líkt og aðrar drykkjarvörur sem eru til sölu í matvöruverslunum.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um að afnema einkasölu ríkisins á öðru en sterku áfengi. Að frumvarpinu standa bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu. Hvort sem frumvarpið verður samþykkt eða ekki að þessu sinni, virðist alveg ljóst að ekki er spurning um hvort heldur hvenær sala léttvíns og bjórs verður gefin frjáls.