Hagvöxtur í Bretlandi hefur verið að færast í aukanna að undanförnu. Vöxturinn sem mældist 1,8% á öðrum ársfjórðungi í fyrra en nú kominn upp í 2,6% samkvæmt tölum sem Hagstofa Breta birti í morgun. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Þar er bent á að þetta komi sér ágætlega fyrir hið íslenska hagkerfi en viðskipti milli Bretlands og Íslands eru mikil.

Vöxturinn á öðrum ársfjórðungi var meiri en spáð hafði verið. Hækkunina má aðallega rekja til aukningar í þjónustu en hún jókst um 1% á 2. ársfjórðungi. Smásala, dreifing, hótel og veitingarekstur jókst um 1,2% . Aukningu í smásölu sem er langt umfram það sem sérfræðingar spáðu má aðallega rekja til nýafstaðinnar Heimsmeistarakeppni í fótbolta.

Því er spáð að breski seðlabankinn hækki vexti fyrir lok ársins vegna vaxtar þjóðarbúsins og aukinnar verðbólgu. Þetta kemur sér svo sem ekkert vel fyrir íslenskan þjóðarbúskap sem skuldar mikið erlendis. Verðbólga í Bretlandi jókst í 2,5% í júní og fór annan mánuðinn í röð yfir 2% verðbólgumarkmið breska seðlabankans. Sérfræðingar bankans hafa undanfarið látið hafa eftir sér að bankinn muni ekki hika við að hækka vexti til að halda verðbólgunni í skefjum segir í Morgunkorninu.