Viðskiptablaðið fjallaði á fimmtudaginn um að vaxandi bil virðist vera milli staðgreidds útsvars sveitarfélaga og þeirra útsvarstekna sem búast mætti við miðað við útsvarsprósentu. Nokkrar mögulegar skýringar eru á því hvers vegna staðgreiddar útsvartekjur virðast ekki fylgja almenna vinnumarkaðnum.

Dan Jens Brynjarsson, fjármálastjóri Akureyrarbæjar, segir það örugglega hafa einhver áhrif að fleiri séu farnir að greiða í viðbótarlífeyrissparnað, en inngreiðslur í séreignarsparnað eru undanþegnar bæði tekjuskatti og útsvari. Heimild til að leggja séreignarsparnað beint inn á íbúðarlán eða í húsnæðissparnað kunni að hafa þar áhrif. Í júlí síðastliðnum höfðu um 9 milljarðar króna af íbúðarlánum verið greiddir niður með þessum hætti samkvæmt tölum Seðlabankans.

Hlutfall eftirágreidds útsvars fer lækkandi

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, bendir á að þær tölur sem útreikningar Viðskiptablaðsins byggjast á kunna að innihalda ýmsa ólöglega starfsemi á borð við vændi og smygl. Slík starfsemi sé eðli málsins samkvæmt ekki gerð upp til skatts. Þá felist það í eðli ferðaþjónustunnar, sem hefur vaxið mjög síðustu árin, að margir séu með eftirágreidda skatta. „Það eru mjög margir smáir aðilar með tiltölulega lítinn rekstur. Þetta er ekki einu sinni staðgreiðsluskylt,“ segir Skúli.

Hlutfall eftirágreidds útsvars af heildarútsvarstekjum hefur haldist milli 4 og 6 prósent síðustu árin samkvæmt tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutfallið fór meira að segja lækkandi á tímabilinu 2008-2014. Þó að tekið sé tillit til eftirágreidds útsvars nær hlutfall útsvarstekna af reiknuðum skattstofni ekki raunverulegri útsvarsprósentu samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins, auk þess sem hlutfallið virðist enn hafa farið lækkandi síðustu fjögur árin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .