Líkurnar á að olíuleit hefjist fyrir alvöru innan íslenskar lögsögu munu aukast til muna verði frumvarp iðnaðarráðaherra sem verið hefur til meðferðar í iðnaðarnefnd að veruleika. Frumvarpið lýtur að breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Í breytingarfrumvarpinu sem Jón Sigurðsson iðnaðarráðaherra lagði fram 25. janúar, er gert ráð fyrir að Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á tilteknum svæðum.

Engin rannsóknar- og vinnsluleyfi hafa verið gefin út og engar umsóknir um rannsóknar- og vinnsluleyfi eru til meðferðar hjá iðnaðarráðuneytinu um þessar mundir. Mun fyrst og fremst stranda á lagalegum forsendum fyrir leit og vinnslu. Sérstök leyfi þarf til rannsókna eða vinnslu kolvetnis, en leitarleyfin fela ekki í sér forgangsrétt til handa leyfishafa til rannsókna eða vinnslu að lokinni leit.

Sem stendur er það einkum svæði við Jan Mayen sem hefur vakið áhuga olíuleitarfyrirtækja. Bergmálsmælingar sunnan við lögsögumörk Íslands við Jan Mayen hafa gefið til kynna að þar séu öll þau skilyrði fyrir hendi til að olía geti fundist. Ef nauðsynlegar lagabreytingar verða að veruleika eru sterkar líkur fyrir því að olíuleit geti fyrir alvöru hafist á svæðinu jafnvel í lok þessa árs eða snemma á næsta ári.

Eitt fyrirtæki er þegar í startholunum og bíður niðurstöðu þingsins. Þar er jafnframt um að ræða eina olíuleitarfyrirtækið sem skráð er hér á landi, eða Geysir Petroleum. Stærsti hluthafi þess er með 20% eignarhlut, en það er fjárfestingarfélagið Norvest ehf. sem er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar. Fyrirtækið hefur gott forskot á önnur olíuleitarfyrirtæki sem hugsanlega kynnu að hafa áhuga á svæðinu.

Í frumvarpi iðnaðarráðherra segir að íslenska ríkið sé eigandi kolvetnis. Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir að heimilt verði að semja við handhafa vinnsluleyfis um að hann verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir. Væntanlega þýðir þetta að fyrirtækið sem dælir olíunni upp geti orðið eigandi þeirrar olíu sem er þá trúlega um leið grundvöllur þess að fyrirtækið geti selt olíuna áfram. Þetta atriði hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnt af minnihluta iðnaðarnefndar sem segir að þetta feli í raun í sér afsal á eignarrétti ríkisins. Vill minnihlutinn að frumvarpinu verði vísað frá.

Sjá nánari úttekt í Viðskiptablaðinu í dag.