„Ekki er víst að verðbólguhorfur séu til muna verri nú en þær voru fyrir falla Wow air,“ skrifar Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í grein sem birt er á vef bankans. Hann telur vaxandi líkur á því að stýrivextir Seðlabankans muni lækka eftir því sem hægir á hjólum efnahagslífsins, að því gefnu að kjarasamningar verði ekki óhóflegir. Jón Bjarki segir ekki víst að gjaldþrot Wow leiði til þess að gengi krónunnar muni gefa mikið eftir, en margir reikna með að viðskiptajöfnuður rýrni og að krónan veikist vegna tapaðra gjaldeyristekna. Lauslega áætlað telur Jón Bjarki að gjaldeyristapið vegna Wow gæti verið á bilinu 50-80 milljarðar króna í ár.

„Fyrstu áhrif á gjaldeyrismarkaði eru þó ekki til þess fallin að hleypa stoðum undir þessa skoðun. Vissulega veiktist gengi krónu allnokkuð strax í kjölfar frétta af rekstrarstöðvun Wow þar til Seðlabankinn greip í taumana með gjaldeyrisinngripi sama dag. Síðan hefur hins vegar færst ró að nýju yfir gjaldeyrismarkað og er gengi krónu nú áþekkt og það var um miðjan janúarmánuð,“ skrifar Jón Bjarki og bætir síðar við. „Við teljum því að eftir sem áður verði ekki halli af utanríkisviðskiptum í ár, nema þá að samdráttur í ferðaþjónustu verði mjög verulegur og langvinnur.“

Gefi gengi krónu ekki umtalsvert eftir telur Jón Bjarki að innflutt verðbólga hjaðna hægt og bítandi. „Áhrifin af gengisfalli krónu á verð innfluttra vara hafa raunar enn sem komið er verið hóflegri en við áttum von á. Virk og vaxandi samkeppni í innlendri smásöluverslun hefur þar áhrif að okkar mati ásamt vaxandi blikum á lofti um innlenda eftirspurn. Að sama skapi hefur dregið úr þrýstingi íbúðaverðs á verðbólgu og eru horfur á að enn frekar hægi á hækkun íbúðaverðs. Þar hefur fall Wow meðal annars áhrif næsta kastið í gegn um minni umfang AirBnB-útleigu og hugsanlegan brottflutnings erlends vinnuafls héðan af landinu. Almennur eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu fer væntanlega að sama skapi minnkandi.“

Annar stór áhrifavaldur á verbólguhorfur eru kjarasamningar. „Ef kjarasamningum þeim sem nú standa yfir lyktar með hóflegum launahækkunum þar sem meginþunginn er í að bæta kjör þeirra sem minnst hafa, líkt og nú virðist vera í kortunum, teljum við ágætar líkur á því að verðbólga aukist ekki að marki það sem eftir lifir árs. Að því gefnu að fleiri deili þeirri skoðun okkar og verðbólguvæntingar hjaðni á nýjan leik, eins og merki virðast vera um á skuldabréfamarkaði, ætti hagstjórnin í vaxandi mæli að miðast við að örva efnahagslífið sem nú virðist vera á leið í töluvert hægari takt en verið hefur.“

Hins vegar telur Jón Bjarki að verði niðurstaða kjarasamninga óhóflegar launahækkanir þá sé um breytta sviðsmynd að ræða. „Ef hins vegar niðurstaða kjarasamninga verður til þess að fyrirtækin ráða ekki við hana öðruvísi en með umtalsverðum verðhækkunum mun það mynda vaxandi þrýsting á gengi krónu og hin gamalkunna íslenska verðbólguskrúfa fer þá að snúa upp á sig eins og oft áður. Þá mun brún Seðlabankafólks þyngjast og hætt er við að þau munu kjósa að ýta upp raunvöxtum til þess að freista þess að bjarga trúverðugleika verðbólgumarkmiðs bankans. Vonandi kemur þó ekki til þess,“ skrifar Jón Bjarki að lokum.