Innanríkisráðuneytið stóð fyrir málþingi um verkefnastjórnsýslu á dögunum í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Þar fjölluðu fimm fyrirlesarar um undirbúning og verklag við opinberar framkvæmdir. Einnig var kynnt skýrslan Verkefnastjórnsýsla: Markviss notkun fjármuna til samgönguframkvæmda , og er hún afurð starfshóps sem skipaður var af innanríkisráðherra seint á síðasta ári til að skyggnast fyrir um íslenska verkefnastjórnsýslu og hvernig hún stendur í samanburði við önnur lönd með svipaða innviði og Ísland.

Meðal fyrirlesara voru þeir Helgi Þór Ingason, prófessor við HR og fortsöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnun við tækni- og verkfræðideild HR, og Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við HR og forstöðumaður CORDA rannsóknarseturs ákvörðunar- og áhættufræða við tækni- og verkfræðideild HR, en Þórður er meðal höfunda fyrrgreindrar skýrslu. Fluttu þeir erindi er bar heitið Fjárhagslegt vægi verkefnastjórnunar í samfélaginu og ræddu efnahagslegt vægi verkefnastjórnunar í bráð og lengd og niðurstöður úr rannsókn þeirra á verkefnastjórnun á Íslandi.

Stóraukið umfang

„Verkefnum fjölgar sífellt. Þau eru að stækka og verða flóknari, auk þess sem þau taka lengri tíma. Umfang verkefnastjórnunar og verkefnaumsýslu í atvinnulífinu er því að margfaldast á alþjóðavísu, eftir því sem fleiri fyrirtæki taka upp verkefnastjórnun sem stjórnunarform,“ segir Þórður Víkingur í samtali við Viðskiptablaðið. Einnig hafi vottun verkefnastjóra, eftirspurn eftir fagmenntuðum verkefnastjórum og starfsemi í kringum skilgreiningar og þekkingarforsendur færst í aukana.

Þórður segir að þó svo að umfang verkefnastjórnunar hafi stóraukist á undanförnum árum, þá hafi fjárhagslegu umfangi verkefna í samfélaginu ekki verið gerð nógu góð skil. Segir hann að þeir Helgi hafi verið í alþjóðlegu samstarfi við meðal annars Þjóðverja. „Þeir hafa upplifað stórkostlegan vöxt í verkefnum sem hlutfall af virðisauka til samfélagsins. Þeir fóru út í það að kanna efnahagslegt umfang verkefna í Þýskalandi, en við Helgi Þór endurtókum þá rannsókn á Íslandi.“

Helmingsaukning á tíu árum

Rannsóknin, sem byggði að hluta á stjórnendakönnun MMR fyrir tímabilið 2009 til 2019, fólst í því að mæla vinnsluvirði íslenskra verkefna, sem er sá virðisauki sem verður til þegar vara og þjónusta eru framleidd, og hlutfall vinnustunda sem varið er til vinnu í verkefnum af heildarfjölda vinnustunda. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að vægi verkefna á Íslandi er verulegt og fer vaxandi.

Vinnsluvirði íslenskra verkefna óx um 32,9% á milli 2009 og 2014, úr 316 milljörðum í 420 milljarða, og er gert ráð fyrir 14,5% aukningu fram til ársins 2019 í 481 milljarð. Hlutfall vinnustunda varið til vinnu í verkefnum var 25% af heildarfjölda vinnustunda árið 2009 og 27,7% árið 2014, og er gert ráð fyrir því að hlutfallið verði 31,5% árið 2019.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .