*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 10. nóvember 2013 09:45

Vaxandi óánægja með forstjórann

Theo Hoen þótti ekki hafa náð þeim árangri sem ætlast var til af honum.

Ritstjórn
Theo Hoen fyrrverandi forstjóri Marels.
Haraldur Guðjónsson

Óánægja innan stjórnar Marel með fyrrum forstjóra fyrirtækisins, Theo Hoen, hafði farið vaxandi og var orðin mjög mikil þegar greint var frá því á föstudaginn að Hoen væri hættur störfum hjá fyrirtækinu og að stjórnarformaðurinn Árni Oddur Þórðarson myndi taka við af honum. Árni Oddur var formaður stjórnar Marels en hefur sagt sig úr stjórninni. Eyrir Invest, sem á þriðjungshlut í Marel, er að stórum hluta í eigu Árna Odds og Þórðar föður hans.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þótti Hoen ekki hafa náð þeim árangri sem stjórnin og hluthafar ætluðust til og því var ákvörðun tekin um það að láta hann fara. Þrátt fyrir að félagið hafi skilað hagnaði það sem af er þessu ári hefur hagnaðurinn verið töluvert frá því sem var í fyrra og verið undir væntingum hluthafa.

Hagnaður fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 17,8 milljónum evra á þessu ári, en nam 29,7 milljónum evra á sama tímabili árið 2012. Ekki náðist í Árna Odd við vinnslu þessarar fréttar en í morgunpósti IFS greiningar í gær var haft eftir honum að mannaskiptin boðuðu ekki breytingu á meginstefnu fyrirtækisins, heldur væru þau viðleitni til að færa reksturinn nær stefnu og markmiðum þess eftir langt tímabil þar sem markmið hafa ekki náðst. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Marel