Þrátt fyrir að stighækkandi lyfjakostnaður í Evrópu valdi stjórnmálamönnum og neytendum höfðuðverk þá hljóta fyrirtækin í samheitalyfjaiðnaðinum að taka slíku fagnandi enda þýðir það vaxandi eftirspurn eftir vörum þeirra, segir í grein dagblaðsins The Financial Times.

Góðar ytri aðstæður hafa orðið til þess að stærstu lyfjafyrirtækin leita nú í auknum mæli samrunatækifæra til að auka hagnað og vöxt sinn. Samkeppnin í iðnaðinum fer nú ört harðnandi og oft eru stærstu fyrirtækin að bítast um sömu bitana.

Á síðasta ári keypti svissneska lyfjafyrirtækið Novartis þýska lyfjafyrirtækið Hexal, sameinaði það Sandoz og bjó þannig til næst stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi en Actavis sem nú er sjötta stærsta lyfjafyrirtækið hefur einnig látið mikið að sér kveða á þessu sviði undanfarið.

Róbert Wessman hefur tilkynnt að Actavis muni ekki verða undir i harðnandi samkeppni og mun halda áfram að leita eftir samrunum sem styðja við vöxt félagsins, enda stefni Actavis að því fullum fetum að verða meðal þeirra stærstu á sviði samheitalyfja í heiminum.

Í síðustu viku eins og kunnugt er gerði Actavis kauptilboð að virði 1,6 milljarðar Bandaríkjadalir í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva en beið skipsbrot þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins vildu sjá hærra tilboð. Actavis útlokar þó ekki að hækka tilboð sitt en ef til samrunans kemur verður Actavis þriðja stærsta samheitalyfjafyrrtæki heims.

Actavis er langt frá því að vera eina evrópska samheitalyfjafyrirtækið sem hyggst færa út kvíarnar en franska lyfjafyrirtækið Sanofi Aventis borgaði nýlega 430 milljónir evra fyrir 25% hlut í tékkneska fyrirtækinu Zentiva og jók verulega við markaðshlutdeild sína á samheitalyfjamarkaðinum í leiðinni.

Lyfjafyrirtæki í Austur Evópu hafa verið sérstaklega ofarlega á óskalistum enda geta lyfjafyrirtæki á borð við Actavis lækkað framleiðslukostnað sinn verulega við að færa hluta starfseminar til Austur Evrópu þar sem launa og framleiðslukostnaður er lítill. Indversk lyfjafyrirtæki hafa einnig byrjað að gjóa augunum til Austur Evrópu og hafa sóst eftir samrunum þar.

Sé litið til þeirrar vaxandi samkeppni og miklu hagnaðarvonar í samheitalyfjaiðnaðinum þá er ljóst að samrunakapphlaup stærstu fyrirtækjanna í iðnaðinum gæti stigmagnast mjög á næstu mánuðum.

Actavis virðist þó standa vel í þeirri samkeppni en í síðustu viku samþykkti rúmenska lyfjafyrirtækið Sindan, sem er rótgróið gamalt fjölskyldufyrirtæki, kauptilboð Actavis sem hljóðaði upp á 12,8 milljarða króna þrátt fyrir að önnur fyrirtæki hafi jafnvel boðið betur.

Með kaupunum greiddi Actavis sér leið inn á ört vaxandi markað fyrir samheita-krabbameinslyf og bætti þannig samkeppnisstöðu sína enn frekar.